Ýmsar fyrirspurnir um kjaramál

Á ég alltaf rétt á desemberuppbót þegar ég hætti eða er sagt upp starfi hjá vinnuveitanda bæjarstarfsmanna?

Starfsmaður þarf að hafa unnið amk. 6 mánuði á árinu eða frá 1.september sama ár.

Sjá greinar úr kjarasamningi Samflots og SÍS:

1.7.1 Desemberuppbót verður sem hér segir: 

Á árinu 2020 - 118.750,-kr
Á árinu 2021 - 121.700,-kr 
Á árinu 2022 - 124.750,-kr 

Starfsmaður í fullu starfi fær greidda desemberuppbót (persónuuppbót) 1. desember ár hvert. Með fullu starfi er átt við 100% starf tímabilið 1. janúar til 30. nóvember sama ár. Hafi starfsmaður gegnt hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k. frá 1. september það ár.


Það sama gildir um tímavinnufólk og miðast óskert fjárhæð við 1.504 unnar dagvinnustundir á framangreindu viðmiðunartímabili.


Eftirlaunaþegar sem eru aðilar að B-deild LSR eða sambærilegum deildum annarra lífeyrissjóða fái greidda desemberuppbót í desember frá viðkomandi lífeyrissjóði í réttu hlutfalli við greidd eftirlaun. 
Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu, en hafði þá starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði skal einnig fá greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. Hlutfall skv. þessari málsgrein er reiknað sem hlutfall af fullri vinnu (100%) í 12 mánuði á almanaksárinu af síðast gildandi desemberuppbót.


1.7.2. Desemberuppbót skv. gr. 1.7.1. greiðist starfsmönnum sem fóru á eftirlaun á árinu, enda hafi þeir skilað starfi er svari til a.m.k. hálfs starfsárs það ár. Sama regla gildir um þá, sem sökum heilsubrests minnka við sig starf, enda liggi fyrir um það vottorð læknis. Heildargreiðsla til eftirlaunaþega verði aldrei hærri en full desemberuppbót sbr. grein 1.7.1. 
1.7.3 Framangreind desemberuppbót er með inniföldu orlofi og greiðist sjálfstætt og án tengsla við laun.

Ef ég leysi yfirmann minn af eða annann hærra launaðan starfsmann af, fæ ég þá sömu laun og hann ?

Starfsmaður sem leysir hærra launaðan starfsmann af skal taka laun hins forfallaða starfsmanns án persónubundinna launamyndunarþátta þann tíma er hann gegnir starfi hans. Taki yfirmaður ekki laun samkvæmt kjarasamningi þessum skal starfsmaður fá þau laun sem samsvara launum yfirmannsins án persónubundinna launamyndunarþátta. Sama hversu lengi afleysingin fer fram, nema viðkomandi sé launaður staðgengill.

 

Sjá eftirfarandi greinar úr kjarasamningi Samflots og SÍS:


9.1 STAÐGENGLAR 
9.1.1 Aðilar eru um það sammála, að eigi þurfi að jafnaði að fela starfsmanni sérstaklega að gegna starfi yfirmanns nema fjarvera yfirmannsins vari lengur en 5 vinnudaga samfellt. 
9.2 LAUNAÐ STAÐGENGILSSTARF 
9.2.1 Sé aðalstarf starfsmannsins launað sem staðgengilsstarf yfirmanns, ber starfsmanninum laun yfirmannsins, án persónubundinna launamyndunarþátta, gegni hann starfi hans lengur en 4 vikur samfellt eða hafi hann gegnt starfi yfirmanns lengur en 6 vikur á hverjum 12 mánuðum. Laun yfirmanns greiðist einungis frá lokum nefndra 4 eða 6 vikna. 
Taki yfirmaður ekki laun samkvæmt kjarasamningi þessum skal starfsmaður fá þau laun sem samsvara launum yfirmannsins án persónubundinna launamyndunarþátta. 
Skrár skulu vera til yfir þá sem eru launaðir staðgenglar skv. starfsmati. 
9.3 AÐRIR STAÐGENGLAR 
9.3.1 Starfsmaður sem ekki er í stöðu staðgengils yfirmanns, en er falið að gegna störfum yfirmanns í forföllum hans eða störfum annars hærra launaðs starfsmanns, skal taka laun hins forfallaða starfsmanns án persónubundinna launamyndunarþátta þann tíma er hann gegnir starfi hans. Taki yfirmaður ekki laun samkvæmt kjarasamningi þessum skal starfsmaður fá þau laun sem samsvara launum yfirmannsins án persónubundinna launamyndunarþátta. 
Með persónubundnum launamyndunarþáttum er átt við viðbót vegna menntunar og símenntunar/starfsaldurs. Sá starfsmaður sem fær staðgengilslaun samkvæmt þessum kafla heldur persónubundnum launamyndunarþáttum sínum.

Frí í stað yfirvinnu

Kjarasamningur Samflots og SNS
Vinni starfsmaður yfirvinnu að beiðni atvinnurekanda skal greiða honum samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Samningar milli starfsmanna og atvinnurekanda sem fela í sér aðrar eða lægri kjör en kveðið er á um í kjarasamningum eru ólöglegir. 


2.3.10 Heimilt er starfsmanni, með samkomulagi við vinnuveitanda, að safna allt að 10 frídögum á ári vegna yfirvinnu, á þann hátt að yfirvinnutímar komi til uppsöfnunar en yfirvinnuálagið er greitt við næstu reglulegu útborgun. Áunnið frí vegna yfirvinnu skal tekið innan 12 mánaða frá ávinnslu ella greiðist fríið út sem dagvinnustundir. 
Yfirvinnuálag er 44,44% af yfirvinnutímakaupi starfsmanns. Yfirvinnuálag skal ekki tekið út í fríi, heldur skal það greitt við næstu reglulegu útborgun, þ.e. þegar yfirvinnan ella hefði komið til greiðslu. 

Dæmi: 
Starfsmaður sem fær 4 tíma frí fyrir 4 tíma yfirvinnu fær greitt yfirvinnuálagið við næstu reglulegu útborgun, sem er 44,44% yfirvinnutímakaupi starfsmanns. Ávallt skal greiða út yfirvinnuálagið með næstu útborgun. 
Reglan er 1:1 auk greiðslu yfirvinnuálags. T.d. ef yfirvinnukaup er kr. 2.200,- þá er yfirvinnuálagið kr. 977,68,- 
Ber vinnuveitanda að sjá svo til að starfsmaður getir tekið sitt frí. Áunnið frí vegna yfirvinnu skal tekið innan 12 mánaða frá ávinnslu ella greiðist fríið út sem dagvinnustundir.

 

Starfslok: http://www.bsrb.is/vinnurettur/starfslok/

Greiðir vinnuveitandi minn útgjöld vegna vinnuslyss ?

Vinnuveitandi á að greiða starfsmanni þau útgjöld sem stafa af völdum slyss á vinnustað. T.d. lækniskostnað, sjúkraþjálfun ofl.

Um vinnuslys segir í kjarasamningum:

 

12.1.6    Vinnuveitandi greiði starfsmanni þau útgjöld sem starfsmaður hefur orðið fyrir af völdum slyss á vinnustað og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

 

32. gr. Nú veldur bótaskylt slys sjúkleika og vinnutjóni í minnst 10 daga og skal þá greiða nauðsynlegan kostnað vegna lækningar hins slasaða og tjóns á gervilimum eða hjálpartækjum svo sem hér segir:
   1. Að fullu skal greiða:
   a. Læknishjálp sem samið hefur verið um [samkvæmt lögum um sjúkratryggingar].1)
   b. Sjúkrahúsvist, svo lengi sem afleiðingar slyssins gera hana nauðsynlega, [sé hinn slasaði ekki sjúkratryggður samkvæmt lögum um sjúkratryggingar].1)1)
   c. Lyf og umbúðir.
   d. Viðgerð vegna brots eða löskunar á heilbrigðum tönnum eða vel viðgerðum. Greiðslu fyrir sams konar viðgerðir á lélegri tönnum má takmarka við kostnað sem ætla má að orðið hefði ef þær hefðu verið heilbrigðar.
   e. Gervilimi eða svipað hjálpartæki, svo og viðgerð á þeim eða endurnýjun ef viðgerð telst ekki fullnægjandi. Sama gildir um gervitennur.
   f. Sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl fyrst eftir slys eða þegar ella verður nauðsynlegt að senda sjúkling með slíkum farartækjum til meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi, þó ekki fyrir einstakar ferðir þegar um stundun er að ræða. Sama gildir um flutning með skipi þegar öðrum farartækjum verður ekki við komið.
   g. Sjúkraþjálfun og orkulækningar.
   2. Að hluta skal greiða:
   a. Að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni. Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venslamanna hins slasaða.
   b. Að 3/4 kostnað við sams konar ferðir með áætlunarbíl eða -skipi, enda sé um meira en 15 km vegalengd að ræða. Geti sjúklingur ekki ferðast með áætlunarbíl skal greiða ferð með áætlunarflugvél að 3/4 .
   3. Heimilt er að greiða:
   a. Hjúkrun í heimahúsum, veitta af vandalausum.
   b. Styrk upp í kostnað vegna löskunar á tönnum þegar framkvæmdar hafa verið kostnaðarsamar aðgerðir á þeim sem ónýst hafa við slysið.
   c. Ferðakostnað að 3/4 hlutum með áætlunarbíl eða strætisvagni eða samkvæmt kílómetragjaldi ef áætlunarferðir eða strætisvagnaferðir eru ekki fyrir hendi þegar sjúklingur þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni á sjúkrahúsi eða sjúkrastofnun, svo sem í endurhæfingu eða sjúkraþjálfun, með eða án innlagningar, þótt vegalengd sé skemmri en 15 km, enda séu ferðir fleiri en 30 á sex mánaða tímabili.
Að svo miklu leyti sem samningar [samkvæmt lögum um sjúkratryggingar]1) ná ekki til sjúkrahjálpar samkvæmt framansögðu getur ráðherra ákveðið endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti með reglugerð.2)
Nú veldur slys ekki óvinnufærni í 10 daga, en hefur þó í för með sér kostnað sem um ræðir í grein þessari og má þá greiða hann að svo miklu leyti sem hann fæst ekki greiddur hjá sjúkratryggingum.

Ýmis réttindi starfsmanna í vaktavinnu

Vetrarfrí og bæting.

Matar og kaffitímar.

 

Vegna matar og kaffitíma vaktavinnufólks: 

2.6.9 Starfsfólk í vaktavinnu hefur ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni, ef því verður við komið starfsins vegna. Vegna takmörkunar þeirra sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum skal telja hverja vakt sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu 25 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam óháð lengd vaktar. Mælist vinnutími þannig lengri en umsamin vinnuskylda skal það sem umfram er greiðast sem yfirvinna. 

2.6.9.1 Starfsmenn í vaktavinnu sem ekki njóta mataraðstöðu samkvæmt greinum 3.4.1 - 3.4.3. skulu fá það bætt með fæðispeningum, sem nema kr. 336,94 fyrir hvern vinnuskyldudag, enda séu þá uppfyllt neðantalin skilyrði: 
a. Vinnuskylda starfsmanns sé minnst sem svarar hálfri stöðu á viku. 
b. Starfsmaður hafi vinnuskyldu á vinnustað frá kl. 11:00 - 14:00 eða frá kl. 18:00 - 20:00 að frádregnu matarhléi. 
Greiðsla þessi skal breytast á þriggja mánaða fresti í samræmi við breytingu á matar- og drykkjavörulið (01) í vísitölu neysluverðs með vísitölu janúarmánaðar 2011 sem grunnvísitölu (186,60 stig). (Greinin gildir frá 1.júní 2011). 

Starfsfólk í vaktavinnu sem ekki nýtur mataraðstöðu skal fá það bætt með fæðispeningum samkvæmt grein 2.6.9.1 

Breyti atvinnurekandi greiðslufyrirkomulagi greinar 2.6.9 og felli matar og kaffitíma inn í dagvinnutíma starfsmanna, getur atvinnurekandi ekki ákveðið einhliða að hætta að greiða samkvæmt því fyrirkomulagi án fyrirvara. Atvinnurekandi verður því að segja formlega upp þessu greiðslufyrirkomulagi og tilkynna með skýrum hætti hvernig þetta mun taka breytingum, að liðnum uppsagnarfresti getur nýja fyrirkomulagið tekið við. uppagnarfrestur getur verið lengri en 3 mánuðir og ef starfsmaðurinn er kominn með 4-6 mánaða uppsagnarfrest þá á hann einnig við uppsögn á yfirvinnugreiðslum vegna 25 mínútnanna.