Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Tekið af vef BSRB.

 

Rannsóknir benda til að kynbundin og kynferðisleg áreitni þrífist á vinnustöðum. Hins vegar er óalgengt að einstaklingar leiti eftir aðstoð vegna slíkra mála. BSRB telur þörf á aukinni umræðu og útbreiðslu þekkingar á slíkri hegðun á vinnustöðum. Dæmi þar um er þátttaka í starfi um endurskoðun reglna varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni sem tók gildi 2015, útgáfa fræðslubæklings og fræðslufundir.

Allir eiga rétt á því að starfsumhverfi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum. Í því felst að starfsmenn eiga rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað.

BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hafa gefið út netbækling þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar. Slík hegðun getur haft afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt, eins og lesa má um í bæklingnum.

Einstaklingar geta meðal annars fundið fyrir verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu, pirringi og lent í tekjutapi. Á vinnustöðum geta starfsmannavelta og veikindi aukist og framleiðni dregist saman, auk þess sem áhrifin á orðspor vinnustaða geta verið mikil. Í samfélaginu ýtir hegðun af þessu tagi til dæmis undir misrétti, kynbundinn launamun og aukinn útgjöld af ýmsu tagi.

Meira
Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

Opinberir starfsmenn hafa fengið sig fullsadda af skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. BSRB, Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boða til baráttufundar fyrir félagsmenn sína þar sem þess verður krafist að opinberir launagreiðendur gangi þegar í stað til kjarasamninga við starfsfólk sitt.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 30. janúar milli klukkan 17 og 18 í aðalsal Háskólabíós. Streymt verður frá fundinum beint á fundi aðildarfélaga BSRB, BHM og Fíh í Hofi á Akureyri og víðar um land.

Kjarasamningar þorra opinberra starfsmanna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019 og hafa viðræður við ríki og sveitarfélög gengið afar hægt. Þolinmæði félagsmanna og samninganefnda er löngu þrotin og kominn tími á að efla samstöðuna og undirbúa aðgerðir.

Á baráttufundinum í Háskólabíói munu eftirtalin flytja stutt ávörp:

  • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
  • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
  • Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
  • Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
  • Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.

Milli ávarpa munu Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar og Reykjavíkurdætur taka nokkur lög.

Birtist fyrst á vef BSRB

Baráttufundinum verður streymt beint á skrifstofu F.O.S.Vest Aðalstræti 24 Ísafirði 30. janúar kl. 17.00. Sýnum samstöðu og fjölmennum!

Endurskoða þarf barnabótakerfið frá grunni

Endurskoða þarf barnabótakerfið frá grunni

Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur kynnti skýrslu um íslenska barnabótakerfið sem hann vann fyrir B…
Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur kynnti skýrslu um íslenska barnabótakerfið sem hann vann fyrir BSRB á opnum fundi í morgun.
 
 

Endurskoða þarf íslenska barnabótakerfið frá grunni enda nýtist það nær eingöngu sem stuðningur við allra tekjulægstu hópana í samfélaginu að mati BSRB. Þá þarf að draga verulega úr tekjutengingum í kerfinu með það að markmiði að auka ráðstöfunartekjur heimila með börn á framfæri.

Í skýrslu sem Kolbeinn Stefánsson, doktor í félagsfræði, vann fyrir BSRB kemur fram að ólíkt barnabótakerfum hinna Norðurlandanna gagnist íslenska barnabótakerfið nær eingöngu foreldrum með afar lágar tekjur. Fyrir vísitölufjölskyldu með tvær fyrirvinnur nálægt meðaltekjum eru bæturnar litlar eða engar. Fjölskyldur í þeirri stöðu á hinum Norðurlöndunum fá umtalsverðar barnabætur.

„Það þarf að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu þar sem sett verða skýr markmið og kerfið útfært þannig að það nái þeim markmiðum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Eins og við sjáum svart á hvítu í skýrslunni kemur íslenska kerfið ágætlega út þegar eingöngu er litið til tekjulágra foreldra ungra barna, en stendur barnabótakerfum hinna Norðurlandanna langt að baki þegar kemur að öllum öðrum foreldrum.“

Barnabætur nokkurskonar fátæktarhjálp

Skýrsla um barnabæturSkýrsla Kolbeins var kynnt á fundi um barnabótakerfið sem BSRB stóð fyrir í morgun. „Þær upphæðir sem allra tekjulægstu fjölskyldurnar fá í barnabætur á Íslandi eru háar í norræna samhenginu en það er þó að nokkru leyti bundið við fjölskyldur með ung börn. Þegar börnin hafa náð sjö ára aldri kemur íslenska barnabótakerfið verr út í samanburði við hin Norðurlöndin,“ segir meðal annars í skýrslunni.

„Barnabætur á Íslandi eru fyrst og fremst nokkurs konar fátæktarhjálp fyrir mjög tekjulágar barnafjölskyldur en í ljósi þess hve lágt skerðingarmörk bótanna liggja má vera ljóst að nokkur fjöldi lágtekjufjölskyldna fær skertar barnabætur,“ segir þar ennfremur.

Í skýrslunni er gagnrýnt hversu ómarkvisst og flókið íslenska kerfið er og bent á að fyrirhuguð hækkun á skerðingarmörkum skili litlum hækkunum á barnabótum fyrir foreldra og geri lítið sem ekkert fyrir tekjulægstu fjölskyldurnar. Hækkun skerðingarmarka geri þar að auki minna fyrir einstæða foreldra, sem búi við mjög auknar líkur á fáttækt og fjárhagsþrengingum.

Sláandi samanburður

Samanburður á barnabótakerfum Norðurlandanna er sláandi. Barnabætur á Íslandi og í Danmörku skerðast eftir tekjum foreldra, en skerðingarmörkin eru mjög ólík. Þannig skerðast barnabætur á Íslandi nærri lágmarkslaunum en í Danmörku ekki fyrr en eftir að meðallaunum er náð. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi eru barnabætur ekki tekjutengdar og fá því allir foreldrar sömu barnabætur óháð tekjum.

Þetta þýðir að fjölskyldur á Íslandi með tvær fyrirvinnur sem eru með meðaltekjur með tvö börn sex ára eða yngri fá litlar sem engar barnabætur. Sambærilegar fjölskyldur á hinum Norðurlöndunum fá frá 27.300 upp í 43.700 krónur á mánuði. (Sjá mynd 1 hér að neðan.)

Mynd 1 - Hjón eða par í sambúð með meðallaun með tvö börn sex ára eða yngri.

Mynd 1 - Hjón eða par í sambúð með meðallaun með tvö börn sex ára eða yngri

 

Íslenska kerfið kemur betur út fyrir launalægstu fjölskyldurnar, en aðeins á meðan börnin eru sex ára eða yngri. Fjölskyldur á Íslandi með tvær fyrirvinnur og helminginn af meðallaunum með tvö börn sex ára eða yngri fá um 46.200 krónur á mánuði. Fjölskyldur í sömu stöðu á hinum Norðurlöndunum fá á bilinu 27.300 til 46.200 krónur á mánuði. Ef börnin eru eldri en sex ára fá íslensku foreldrarnir aðeins um 24.000 krónur á mánuði en foreldrar á hinum Norðurlöndunum 27.300 til 43.700 krónur á mánuði. (Sjá mynd 2 hér að neðan.)

Mynd 2 - Hjón eða par í sambúð með 50 prósent af meðallaunum og tvö börn

Mynd 2 - Hjón eða par í sambúð með 50 prósent af meðallaunum og tvö börn

 

Hægt er að sækja skýrsluna Barnabætur á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin hér.

Hér má sjá glærur sem Kolbeinn Stefánsson notaði við kynningu á skýrslunni á fundinum í morgun.

Samkomulag um styttingu í dagvinnu í höfn

Samkomulag um styttingu í dagvinnu í höfn

Það er skýr krafa BSRB að gengið verði lengra í styttingu vinnutíma vaktavinnufólks en þeirra sem eingöngu vinna dagvinnu, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Meira