Félagsmannasjóðurinn Katla

Félagsmannasjóðurinn Katla

 

Búið er að opna fyrir umsóknir í Kötlu félagsmannasjóð sem er sjóður þeirra stéttarfélaga BSRB og félagsmanna þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Félagsmenn sækja um á rafrænni umsóknarsíðu sjóðsins og leggja fram viðeigandi upplýsingar svo sem síðasta launaseðil viðmiðunarárs, starfshlutfall og starfstíma yfir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020. 

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar. Greitt verður úr sjóðnum í apríl, nánari upplýsingar á https://katla.bsrb.is/ 

Sækja um hér: https://minarsidurkatla.bsrb.is

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks í hnotskurn

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks í hnotskurn

Tekið af vef BSRB, birt þar 2.febrúar.
 
Hægt er að lesa allt um styttingu vinnuvikunnar á betrivinnutimi.is.

 

Það getur verið flókið að kynna sér þær umfangsmiklu breytingar sem framundan eru hjá vaktavinnufólki þann 1. maí næstkomandi þegar vinnuvika þeirra styttist. Nú er hægt að sjá upplýsingar um breytinguna í hnotskurn á vefnum betrivinnutimi.is.

Þann 1. maí mun vinnuvika vaktavinnufólks styttast úr 40 stundum í 36, eða úr 173,33 klukkustundum í 156 að meðaltali í mánuði. Þá getur starfsfólk sem er á þyngstu vöktunum búist við enn meiri styttingu, allt niður í 32 stundir fyrir þau sem eru á þyngstu vöktunum.

Nú þegar vinnufyrirkomulagið verður endurskoðað verða einnig gerðar breytingar á því hvernig launin eru reiknuð út, launamyndunarkerfinu. Þar er þó skýrt markmið að enginn eigi að lækka í launum við breytingarnar og verður því fylgt eftir af fullum þunga af hálfu BSRB og aðildarfélaga bandalagsins.

Þessum breytingum fylgir einnig spennandi tækifæri fyrir vaktavinnufólk sem ekki er í fullu starfshlutfalli. Þeir sem hafa verið í hlutastarfi í vaktavinnu eiga rétt á að hækka hlutfallið á móti styttingunni og hækka þar með í launum.

Fyrir þá sem eru að koma nýir að samtalinu um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu má benda á þessa samantekt á vefnum betrivinnutimi.is, þar sem hægt er að afla sér helstu upplýsinga.

betrivinnutimi.is

Stytting vaktavinnu - allt að 32 stunda vinnuvika

Stytting vaktavinnu - allt að 32 stunda vinnuvika

Eins og stefnt var að tók um áramótin við styttri vinnuvika hjá mörgum félagsmönnum F.O.S.Vest. Enn er þó eftir að ganga frá styttingu á nokkrum vinnustöðum. 

Sumstaðar hefur ferlið gengið vel eins og hjá Ísafjarðarbæ þar sem ákveðið var að fara í fulla styttingu. Einnig átti félagið ákaflega ánægjulegt samstarf við Orkubú Vestfjarða um styttingu vinnuvikunnar sem skilaði sér í styttingu í 36 stundir 1. janúar í mismunandi útfærslum eftir vinnustöðum.

Næsta verkefnið í vinnutímastyttingunni er stytting í vaktavinnu sem taka á gildi 1. maí. Styttingin í vaktavinnu getur orðið allt að 32 stunda vinnuvika og fer það eftir samsetningu vakta en aldrei minna en í 36 stundir.

Mikilvægt er fyrir vaktafólk að gera sér grein fyrir hvernig ferlið er og nota vaktareiknirinn á  betrivinnutími.is til að skoða hvaða áhrif styttingin hefur á þeirra vinnu. Hér er leiðbeiningarbæklingur þar sem farið er ýtarlega yfir ferlið. Einnig er tilvalið að kíkja á þetta frábæra video:

Við minnum á markmiðin með styttingu vinnuvikunnar sem skjalfest voru í nýjustu kjarasamningum bæði við ríkið og sveitarfélögin:

 • Stytta vinnuvikuna
 • Auka öryggi starfsfólks og skjólstæðinga
 • Gera vaktavinnu eftirsóknarverðari
 • Bæta samþættingu vinnu og einkalífs
 • Vinnutími og laun taki betur mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma
 • Bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks
 • Bæta starfsumhverfi
 • Auka stöðugleika í mönnun
 • Jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði
 • Draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
 • Auka hagkvæmni í nýtingu fjármuna
 • Bæta gæði opinberrar þjónustu


Eins og áður hvetjum við þá félagsmenn, sem standa í eldlínunni á sínum vinnustöðum við að innleiða vinnutímastyttinguna, að hafa samband við skrifstofu félagsins í tölvupósti, í síma 456-4407, á vefnum, á facebook eða með því að bóka viðtalstíma á skrifstofu. Við höfum tímabundið aukið við starfskrafta á skrifstofunni til að við getum aðstoðað ykkur eins vel og hægt er.

Vinnum saman og bætum lífsgæðin okkar með styttri vinnuviku!

Námskeið fyrir vaktavinnufólk

Námskeið fyrir vaktavinnufólk

Í næstu viku hefjast stutt námskeið fyrir starfsfólk í vaktavinnu á vegum verkefnastjórnar um betri vinnutíma í vaktavinnu og Starfsmenntar. Námskeiðin taka klukkutíma og er markmiðið að fara yfir kerfisbreytinguna í heild sinni í stuttu máli, og jafnframt leiðbeina fólki um hvernig það getur sjálft leitað sér frekari upplýsinga. Námskeiðin fara fram í gegnum Teams.

 

Inn á www. betrivinnutimi.is má nálgast nánari upplýsingar og hlekki á skráningu. Hámark á hvert námskeið er 100 manns, en ef það verður umframeftirspurn verður fleiri námskeiðum bætt við.