FOSvest FOSvest | þriðjudagurinn 13. mars 2018

Samkomulag um breytingu á kjarasamningum

Þann 1.mars 2018 undirrituðu aðilar Rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá 27.október 2015, samkomulag um útfærslu launaþróunartryggingar. Í samkomulaginu segir að hækkun til aðildarfélaga BSRB vegna launaþróunartryggingar fyrir tímabilið 2013 til 2017 skuli nema 1,4% og gilda frá 1.janúar 2018. 

Samningsaðilar eru sammála um að nýta launaþróunartrygginguna til hækkunar launatöflu aðila skv.gr.1.1.1. um 1,4% frá 1.janúar 2018. 

Reykjavík 7.mars 2018

Undirritað af samninganefndum; Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðildarfélaga innan BSRB

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 8. mars 2018

Afturvirkar greiðslur geta haft áhrif á bætur

Þeir sem þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eða atvinnuleysistryggingasjóði og fengu afturvirka launahækkun gætu þurft að hafa samband við Vinnumálastofnun.
Þeir sem þiggja greiðslur úr fæðingarorlofssjóði eða atvinnuleysistryggingasjóði og fengu afturvirka launahækkun gætu þurft að hafa samband við Vinnumálastofnun.

Afturvirk hækkun á launum vegna launaþróunartryggingar getur haft áhrif á atvinnuleysisbætur og greiðslur úr fæðingarorlofssjóði samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun.

Félagar í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu fengu 1,3 prósenta launahækkun afturvirkt frá 1. janúar 2017 vegna launaþróunartryggingar. Félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum fá 1,4 prósenta hækkun afturvirkt frá 1. janúar 2018. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir.


Meira
FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 8. mars 2018

Samið um næsta áfanga launaþróunartryggingar

 

Tekið af vef BSRB, birtist 01.03.2018

Samkomulag um framhald launaþróunartryggingar opinberra starfsmanna sem eru í BSRB eða Alþýðusambandi Íslands var undirritað á skrifstofu BSRB í hádeginu í dag. Laun félaga í BSRB sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,4 prósent frá 1. janúar 2018 vegna samkomulagsins.

Laun félaga í ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu einnig hækka um 1,4 prósent og laun félaga í ASÍ sem starfa hjá ríkinu hækka um 0,5 prósent frá sama tíma. Þessar hækkanir koma til viðbótar við samningsbundnar hækkanir.

Samkomulagið um útfærslu launaþróunartryggingar er gert í kjölfar rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins sem gert var í október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BSRB og Samtök atvinnulífsins.

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að starfsmönnum hjá ríki og sveitarfélögum verði bætt launaskrið á almennum vinnumarkaði verði það meira en hjá hinu opinbera. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Önnur mæling af þremur

Í samkomulaginu sem undirritað var í dag er horft til launaþróunar frá nóvember 2013 til nóvember 2017. Þetta er í annað skipti sem launaþróunin er mæld. Eftir síðustu mælingu, frá 2013 til 2016, voru laun félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu hækkuð um 1,3 prósent. Nú hækka laun starfsmanna hjá sveitarfélögum um svipað hlutfall, eða 1,4 prósent.

Laun félaga í aðildarfélögum BSRB sem starfa hjá ríkinu hækka ekki að þessu sinni þar sem laun þeirra hafa hækkað meira en sem nemur hækkunum á almennum vinnumarkaði á tímabilinu.

Þriðja og síðasta mælingin á launaskriði, vegna ársins 2018, verður gerð snemma á næsta ári.

Logo1Námskeið um lífeyrismál við starfslok hjá Brú lífeyrissjóði

Brú lífeyrissjóður heldur námskeið um lífeyrisréttindi við starfslok fyrir sjóðfélaga Brúar lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar í húsakynnum sjóðsins, Sigtúni 42, Reykjavík, miðvikudaginn 17. janúar nk.

Á námskeiðinu verður farið almennt yfir helstu lífeyrisréttindi sjóðfélaga, hvar upplýsingar um réttindi er að finna og spurningum svarað sem brenna á sjóðfélögum um lífeyrismál.

Brú lífeyrissjóður rekur þrjár ólíkar deildir með mismunandi réttindakerfum og er námskeiðið því skipt upp eftir því. Takmarkaður fjöldi sæta eru í boði á hvert námskeið og nauðsynlegt að sjóðfélagar skrái þátttöku sína. Námskeið fyrir hverja deild tekur u.þ.b. klukkutíma.

 Næsta námskeið verður haldið miðvikudaginn 17. janúar nk. 

B deild – Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar – Lífeyrissjóður starfsmanna Kópavogsbæjar  kl. 16.30
A deild kl. 17.30
V deild kl. 18.30

Næstu námskeið eftir þetta verða:  21. febrúar, 14. mars og 11. apríl.

Skráning hér

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 10. janúar 2018

Opið fyrir umsóknir um nám í Genfarskólanum

Félagsmenn með áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar geta sótt um hjá Genfarskólanum.
Félagsmenn með áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar geta sótt um hjá Genfarskólanum.

Frestur til að skila inn umsókn fyrir nám í Norræna lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum, rennur út í lok janúar. Skólinn er ætlaður virkum félagsmönnum í stéttarfélögunum sem hafa áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar.

Æskilegt er að umsækjendur hafi sótt fræðslustarf á vegum verkalýðshreyfingarinnar og þekki til starfsemi stéttarfélaga og samtaka þeirra hér á landi.

Nám við Genfarskólann fer fram samhliða Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf og dregur nafn sitt af því. Í náminu kynnast nemendur þinghaldinu og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), en stofnunin starfar að vinnumálum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Á þinginu sitja fulltrúar frá stjórnvöldum, atvinnurekendum og samtökum launafólks um allan heim. Nemendur í Genfarskólanum fá að kynnast norrænu samstarfi á vettvangi ILO og ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa með stofnuninni.

Námskeið í Svíþjóð og nám í Genf

Þeir nemendur sem fá inngöngu í skólann að þessu sinni sækja kynningarfundi hér á landi í mars með fulltrúum Íslands á ILO-þinginu og þátttakendum síðasta árs. Því næst fara þeir á fornámskeið í Svíþjóð dagana 12. til 15. apríl. Að því loknu verða þeir í fjarnámi í apríl og maí. Aðalnámskeiðið fer svo fram dagana 24. maí til 12. júní í Genf. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi gott vald á einu norðurlandamáli og hafi auk þess góða enskukunnáttu.

Undanfarin ár hafa tveir nemendur frá Íslandi sótt Genfarskólann. BSRB og ASÍ greiða námskeiðsgjöld og flugfargjöld fyrir einn nemanda hvort.

Sótt er um í gegnum vef Genfarskólans og þar má einnig fá allar upplýsingar um skólann og námið. Sækja þarf um í síðasta lagi þann 31. janúar næstkomandi.

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 10. janúar 2018

Bregðumst við álagi og áreiti með styttri vinnutíma

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.
Birt á vef BSRB 05.01.2018 

Skoða verður af fullri alvöru hvernig hægt er að bregðast við í samfélagi þar sem álag og áreiti eykst sífellt. Sem betur fer er skilningur á mikilvægi þess að stytta vinnutímann að aukast.

Bæði Reykjavíkurborg og ríkið eru nú með tilraunaverkefni í gangi til að skoða kosti og galla styttingar vinnuvikunnar. BSRB hefur talað fyrir því um áratuga skeið og hefur krafan færst sífellt ofar á kröfulistann. Bandalagið leggur áherslu á að vinnuvikan verði stytt úr 40 stundum í 36.

Nú er samfélagið farið að taka við sér svo um munar. Reykjavíkurborg hefur leitt vagninn með tilraunaverkefni sem unnið hefur verið með BSRB frá árinu 2015. Annar áfangi verkefnisins hefst bráðlega en þá geta allir vinnustaðir borgarinnar sótt um að taka þátt. Sambærilegt tilraunaverkefni ríkisins og BSRB er einnig í gangi.

Markmiðið með tilraunaverkefnunum er að rannsaka langtímaáhrifin af því að stytta vinnuvikuna án þess að skerða laun. Þær niðurstöður sem komnar eru úr fyrsta áfanga tilraunaverkefnis borgarinnar sýna að styttingin hefur gefið góða raun. Starfsánægja hefur aukist og skammtímaveikindi dregist saman á meðan afköstin hafa haldist óbreytt.

Augljós hagur allra

Önnur sveitarfélög hafa einnig sýnt málinu áhuga, af augljósum ástæðum. Ef vinnustaðir geta með einni aðgerð dregið úr álagi og veikindum án þess að það bitni á afköstum er það augljós hagur allra að skoða málið. Það ættu framsýnir stjórnendur fyrirtækja á almennum vinnumarkaði einnig að gera.

Með styttri vinnuviku má stuðla að fjölskylduvænna samfélagi. Fæst viljum við að börn séu í meira en átta tíma á dag í skólum og leikskólum. Flestir gætu hugsað sér meiri tíma til að hreyfa sig, sinna fjölskyldu og áhugamálum. Með styttri vinnuviku má einnig auka jafnrétti á vinnumarkaði, enda vinna konur frekar hlutastörf en karlar og eru líklegri til að sinna börnum í meira mæli. Við höfum allt að vinna og engu að tapa með því að stytta vinnuvikuna.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 10. janúar 2018

Nám trúnaðarmanna gert hnitmiðaðra

Nám trúnaðarmanna BSRB hefur nú verið stokkað upp.

Nám trúnaðarmanna við Félagsmálaskóla alþýðu hefur verið endurskoðað, námsefnið stokkað upp gert hnitmiðaðra. Námsskrá fyrir vorið hefur nú verið gefin út.

Námskeiðin sem sumir af okkar trúnaðarmönnum gætu kannast við, Trúnaðarmannanámskeið I og Trúnaðarmannanámskeið II, hafa verið sameinuð í eina námskrá, sem kallast einfaldlega Nám trúnaðarmannsins.

Eins og fram kemur á vef Félagsmálaskóla alþýðu er námið í heild sinni 96 kennslustundir og hefur verið stytt umtalsvert því það var áður 142 kennslustundir. Það var gert með því að fara vandlega yfir námsefnið og ábendingar frá trúnaðarmönnum sem setið hafa námskeiðin til að taka út endurtekningar og gera námið allt hnitmiðaðra.

Nýja námsskráin skiptist í sex hluta. Hver hluti er 16 kennslustundir og er kennt á tveimur heilum dögum, í stað þriggja daga áður. Efnið sem farið verður yfir í hverjum hluta er eftirfarandi:

Fyrsti hluti – 30 og 31. janúar 2018

 • Hvert er hlutverk stéttarfélaga, sambanda og heildarsamtaka á vinnumarkaði?
 • Hvernig starfa stéttarfélögin, stjórnir þeirra og hvert er hlutverk félagsmanna?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanns á vinnustað, hvað á hann að gera og hvað á hann ekki að gera?
 • Hvert er hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum?
 • Hvar getur trúnaðarmaður aflað sér upplýsinga um túlkanir kjarasamninga og önnur mál sem koma inn á hans borð?
 • Hvernig eiga trúnaðarmenn að taka á móti umkvörtunum og vinna úr þeim?

Annar hluti – 8. og 9. febrúar 2018

 • Lögð er megináhersla á mikilvægi góðra samskipta á vinnustað, hvernig megi stuðla að góðum samskiptum.
 • Skoðuð er mismunandi framkoma, áhrif hennar á okkur og aðra.
 • Nemendur kynnast afleiðingum langvarandi slæmra samskipta, eineltis á vinnustað, hvernig bregðast eigi við og ábyrgð gerenda og atvinnurekenda.
 • Nemendur kynnast starfsemi stéttarfélagsins, réttindum félagsmanna.
 • Nemendur læra á innihald og uppbyggingu kjarasamninga og helstu túlkun á þeim.
 • Nemendur kynnast sjóðum félagsins og réttindum félagsmanna í þeim.

Þriðji hluti – 5. og 6. mars 2018

 • Nemendur læra reiknitölur helstu launaliða.
 • Nemendur kynnast grunnuppbyggingu launaseðla og launaútreikninga svo og staðgreiðslu skatta.
 • Nemendur kynnast tryggingum sem við höfum í gegnum kjarasamninga, almannatryggingakerfið, sér tryggingar.
 • Nemendur kynnast íslenskum vinnurétti, þeim lögum sem styrkja kjarasamninga vinnumarkaðarins.

Fjórði hluti – 26. og 27. mars 2018

 • Megináhersla er lögð á helstu hagfræðihugtök í daglegu lífi og í kjarasamningagerð, s.s. kaupmátt launa, mun á hlutfallslegri hækkun eða krónutöluhækkun.
 • Nemendur kynnast hvað þarf að hafa í huga við gerð samninga.
 • Megináhersla er lögð á lög um vinnurétt og hvernig þau styðja kjarasamninga og hvernig íslenskur vinnumarkaður er upp byggður.
 • Lögð er áhersla á rétt launamanna t.d. til fæðingarorlofs, atvinnuleysistrygginga og ýmis þau réttindi í lögum og reglugerðum sem íslenskur vinnumarkaður byggir á.

Fimmti hluti – 24. og 25. apríl 2018

 • Kynninga á Virk-starfsendurhæfingar—sjóðnum og starfi ráðgjafa hans.
 • Kynning á Vinnueftirlitinu, skyldum atvinnurekenda í vinnuvernd og trúnaðarmanna.
 • Farið er í hvernig sjálfstraust einstaklinga hefur áhrif á samskipti.
 • Nemendur kynnast áhrifum skorts á sjálfstraust og ýmsar birtingamyndir þess.
 • Nemendur kynnast leiðum til að efla sjálfstraustið og hvaða aðstæður geta haft áhrif á minnkandi sjálfstraust.

Sjötti hluti – 7. og 8. maí 2018

 • Nemendur kynnast helstu hugtökum í samningtækni.
 • Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar, hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.
 • Megináhersla er á undirbúning framsögu og umræður á vinnustaða- og félagsfundum, fundarsköp og frágang fundagerða.
 • Einnig er fjallað um einkenni og tilgang ýmissa ræðuforma.
 • Lögð er áhersla á að skilgreina helstu einkenni rökræðu, mikilvægi þess að hlusta á skoðanir annarra.

Áhugasamir nemendur geta skráð sig á námskeiðin í gegnum vef Félagsmálaskóla alþýðu. Stofna þarf aðgang með íslykli eða lykilorði til að fá aðgang að námsgögnum og komast í samband við leiðbeinendur. Sækja má skjal með upplýsingum um tímasetningu námskeiða og námsefni hér.

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 21. desember 2017

Gleðileg jól

Eldri færslur
Vefumsjón