FOSvest FOSvest | föstudagurinn 11. janúar 2019

Námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Samskipti á vinnustað

Haldið 16. janúar 2019. 

 

 Lykillinn að framúrskarandi samstarfi og árangri felst í öflugum samskiptum. Rannsóknir hafa margsýnt fram á fylgni á milli öflugra samskipta á vinnustað og aukinnar framleiðni og starfsánægju.

Meðal þess sem þú færð út úr námskeiðinu er:
– Innsýn í mismunandi samskiptastíl og hvað einkennir „fyrirmyndar“ samskiptastíl. 
– Upplýsingar um dæmigerðar ástæður ágreinings á vinnustöðum – Betri færni í að taka eftir „földum“ skilaboðum (þínum og annarra). 
– Aukinn skilning á hvernig megi fyrirbyggja óæskilegan ágreining og spennu á vinnustaðnum og í staðinn stuðla að öflugum samskiptum. 
– Aukna færni við að takast á við erfið samskipti og erfið mál sem þarf að ræða.

Kennari: Rakel Heiðmarsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi. Rakel hefur starfað sem mannauðsstjóri í 11 ár, fyrst í Norðuráli (2005-2012), svo Jarðborunum (2012) og loks í Bláa Lóninu (2013-2017). Rakel er með doktorspróf í sálfræði og hefur haldið ýmis starfstengd námskeið fyrir stjórnendur og starfsmenn í gegnum tíðina. 
Tími: Kennt miðvikudaginn 16. janúar 2019 kl. 11:45-15:45.
Lengd: 6 kennslustundir (1skipti).
Staður: Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12, Ísafirði.
Verð: 33.000 kr.

Námskeiðið er frítt fyrir þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem greiða til VerkVest eða Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur. Þeir sem nýta sér þetta eru beðnir að setja upplýsingar um vinnustað í reitinn "viðbótarupplýsingar" á skráningarforminu. 

Starfsmenn hjá ríki eða sveitarfélögum sem eru í FosVest eða SFR geta einnig sótt námskeiðið sér að kostnaðarlausu. Þeir þurfa að skrá sig í gegnum vef Starfsmenntar, smennt.is.

Minnum aðra væntanlega þátttakendur á að kanna möguleikana á styrkjum hjá stéttarfélögum og fræðslusjóðum!

Almennt gildir að til þess að ljúka námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða með viðurkenningu þarf að lágmarki 75% mætingu.

 

 

Áfram Ég - Sex lyklar að velgengni

Haldið 18. janúar 2019. 

Námskeiðið miðar að því að gera þátttakendur hæfari í að koma sér á framfæri og greina stöðu sína sem einstaklinga og gera þeim kleift að tileinka sér ákveðna hugsun, hegðun og leiðir til að efla sig sem persónur. Áfram Ég!

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að styrkja þátttakendur í sex lykilskrefum á leið þeirra til aukinnar velgengni í lífinu.

1. Samskipti. Í samskiptum er sjálfsmeðvitund mikilvæg, að gefa sér tíma, hlusta, hrósa og gagnrýna á uppbyggilegan hátt og semja þannig að allir gangi sáttir frá borði. Unnið með: Samskiptaform, samningatækni, áhrif og mikilvægi hegðunar í samskiptum.

2. Markmiðasetning. Til að ná árangri þarf að skipuleggja sig og setja sér markmið. Hvernig geri ég betur? Unnið með: DUMB aðferðafræðina, 80/20% regluna, tímastjórnun, aga og vilja. Leiðin út úr fullkomnunaráráttunni.

3. Sjálfsefling. Ferðalag með fyrirheit þar sem vilji og agi kallast á og skila þér á áfangastað. Unnið með: Styrkleika, sjálfstraust, áskoranir og þroskaferli.

4. Fjármál. Þarf ég að vera fátækur ef ég verð ekki ríkur? Unnið með: Viðhorf til peninga, yfirsýn, skipulag, markmið.

5. Heilsa. Góð andleg og líkamleg heilsa er grunnurinn að því að geta gert það sem ég vil í lífinu. Unnið með: Mataræði, hreyfingu, hugarfar og hamingju.

6. Framkoma. Góð og örugg framkoma lætur mér líða betur í eigin skinni, styrkir mig sem einstakling og hvetur fólk til liðs við mig. Unnið með: Grunnatriði í framkomu og að öðlast kjark til að tjá mig fyrir framan fólk.

Kennari: Ragnar Matthíasson mannauðsráðgjafi - MBA og MSc. í mannauðsstjórnun.
Tími: Kennt föstudaginn 18. janúar kl. 12-16:10 og laugardaginn 19. janúar kl. 9-12:20. 
Lengd: 12 kennslustundir (1skipti).
Staður: Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Suðurgötu 12, Ísafirði.
Verð: 49.000 kr.

Námskeiðið er frítt fyrir þá starfsmenn ríkis og sveitarfélaga sem greiða til VerkVest eða Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungarvíkur. Þeir sem nýta sér þetta eru beðnir að setja upplýsingar um vinnustað í reitinn "viðbótarupplýsingar" á skráningarforminu. 

Starfsmenn hjá ríki eða sveitarfélögum sem eru í SFR eða FosVest geta einnig sótt námskeiðið sér að kostnaðarlausu. Þeir þurfa að skrá sig í gegnum vef Starfsmenntar, smennt.is.

Minnum aðra væntanlega þátttakendur á að kanna möguleikana á styrkjum hjá stéttarfélögum og fræðslusjóðum!

Almennt gildir að til þess að ljúka námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða með viðurkenningu þarf að lágmarki 75% mætingu.

 

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 10. janúar 2019

Magnús Már nýr framkvæmdastjóri BSRB

Magnús Már Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BSRB.
Magnús Már Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BSRB.

Magnús Már Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri BSRB. Hann tekur við starfinu af Helgu Jónsdóttur, sem lét af störfum um áramótin. Magnús hefur verið borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi frá árinu 2014 en mun óska eftir leyfi frá störfum á fundi borgarstjórnar í næstu viku.

„Það eru spennandi tímar hjá BSRB eins og annars staðar í verkalýðshreyfingunni og ég hlakka til að starfa með öflugu fólki innan bandalagsins og í aðildarfélögum þess,“ segir Magnús Már. „Barátta verkalýðsfélaga er barátta fyrir bættu samfélagi sem rímar vel við þær hugsjónir sem ég hef beitt mér fyrir á öðrum vettvangi á undanförnum árum.“

Magnús er með B.A. próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands með stjórnmálafræði sem aukagrein. Hann er með kennsluréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari og hóf nýlega meistaranám í opinberri stjórnsýslu.

Magnús starfaði með fötluðum börnum og ungmennum hjá Íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar með námi á árunum 2002 til 2008. Hann var fréttamaður á fréttastofu Vísis.is og Bylgjunnar að námi loknu en hóf störf sem kennari í Menntaskólanum í Kópavogi árið 2011. Hann var kjörinn varaborgarfulltrúi í Reykjavíkurborg árið 2014, varð tímabundið borgarfulltrúi árið 2016, en hefur verið varaborgarfulltrúi aftur frá árinu 2017.

„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá BSRB að fá Magnús Má til liðs við okkur,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Magnús kemur með mikla reynslu með sér til starfa, til að mynda hefur hann stýrt tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg síðustu árin og þekkir því vel til þessa stóra stefnumáls bandalagsins.“

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 10. janúar 2019

Metfjöldi umsókna hjá VIRK á síðasta ári

Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.
Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK.

Alls sóttu 1.961 einstaklingar um starfsendurhæfingu hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði á síðasta ári og hefur fjöldinn aldrei verið meiri. Þá luku 1.367 starfsendurhæfingu hjá VIRK á árinu, sem einnig er metfjöldi.

VIRK starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins árið 2009 til að bregðast við þeim þrengingum sem samfélagið gekk í gegnum í kjölfar bankahrunsins. Markmiðið var að auka framboð af sérhæfðri starfsendurhæfingu.

Aukin ásókn í þjónustuna er áhyggjuefni, segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, í samtali við RÚV. „Við höfum áhyggjur af þessari aukningu. Þetta hefur haldið áfram núna og við áttum ekki von á því. Það sem við höfum mestar áhyggjur af er aukinn fjöldi ungs fólks sem leitar til okkar. En svo getur verið önnur skýring. Hún er sú að fólk er orðið meira meðvitað um okkar þjónustu og fagaðilar vísa til okkar í meira mæli en áður,“ segir Vigdís.

Á árunum 2010 til 2017 leituðu alls 12.197 til VIRK, þar af 1.600 félagar í aðildarfélögum BSRB, eða um 13 prósent. Þetta kemur fram í samantekt sem VIRK vann fyrir bandalagið. Af þeim félögum BSRB sem leituðu til VIRK voru 83 prósent konur og 17 prósent karlar. Hafa verður í huga að tveir af hverjum þremur félagsmönnum í aðildarfélögum bandalagsins eru konur.

Í samantektinni kemur fram að níu af hverjum tíu félögum í aðildarfélögum BSRB sem leituðu til VIRK á árunum 2010 til 2017 glímdu við annað hvort stoðkerfisvanda eða geðræn vandamál. Þannig sögðust alls um 46 prósent þeirra sem leituðu til VIRK á þessu árabili að ástæður fjarvista frá vinnu við upphaf þjónustu væri stoðkerfisvandi en 44 prósent nefndu geðræn vandamál.

Aðrar ástæður voru ekki jafn algengar, en í sumum tilvikum nefndu þau sem leituðu til VIRK fleiri en eina ástæðu. Þannig nefndu um 5 prósent efnaskiptasjúkdóma, sama hlutfall nefndi taugasjúkdóma, öndunarfærasjúkdóma og smitsjúkdóma. Færri nefndu hjarta- og æðasjúkdóma, æxli, meltingarfærasjúkdóma eða aðrar ástæður.

Ungu fólki fjölgar verulega

Athygli vekur að á síðustu árum hefur hlutfall ungs fólks sem leitað hefur til VIRK aukist verulega. Árið 2010 voru um 17 prósent félagsmanna BSRB sem leituðu til virk 34 ára eða yngri en hlutfallið hafði nærri tvöfaldast og var komið í 33 prósent árið 2017. Hlutfallsleg aukning varð einnig hjá fólki á aldrinum 35 til 44 ára, úr 15 prósentum árið 2010 í 24 prósent árið 2017. Á móti lækkaði hlutfall 45 ára og eldri úr 68 prósent í 44 prósent á sama tímabili.

Í samantektinni sem unnin var fyrir BSRB kemur fram að við lok þjónustu var nær helmingur þeirra sem leituðu til VIRK komin í launuð störf á vinnumarkaði, reiknað í stöðugildum. Þá voru 5 prósent í atvinnuleit, 10 prósent á endurhæfingarlífeyri og 22 prósent á örorkulífeyri.

Hægt er að fræðast meira um VIRK starfsendurhæfingarsjóð á vef VIRK.

Hægt er að nálgast samantekt VIRK um BSRB hér.

FOSvest FOSvest | fimmtudagurinn 10. janúar 2019

Málþing um styttingu vinnuvikunnar á laugardag

Stytting vinnuvikunnar hefur eitt af stóru baráttumálum BSRB síðustu ár.
Stytting vinnuvikunnar hefur eitt af stóru baráttumálum BSRB síðustu ár.

Formaður BSRB verður einn fyrirlesaranna á málþingi um styttingu vinnuvikunnar sem Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, efnir til í Hörpu, Rímu A og B, laugardaginn 12. janúar.

Markmiðið með málþinginu er að þroska enn frekar umræðuna um þetta mikilvæga hagsmunamál íslensks launafólks og auka skilning á þeim möguleikum sem stytting vinnuvikunnar hefur fyrir íslenskt samfélag.

Efnt er til málþingsins með stuðningi ASÍ, BRSB, BHM og Eflingar stéttarfélags. Fundarstjóri verður Katrín Oddsdóttir.

Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:

Björn Þorsteinsson prófessor opnar málþingið fyrir hönd stjórnar Öldu.

Aidan Harper, New Economics Foundation: Skemmri vinnuvika og lífsgæði, áhrif á náttúruna og samfélagið. Tengsl við aukna framleiðni.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB: Styttri vinnuvika - Eftir hverju erum við að bíða? Tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar og ríkisins.

Ragnar Þór Ingólfsson, VR. Stytting vinnuvikunnar, nýr fókus.

Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar: Reynslusaga um styttingu vinnudagsins.

Guðmundur D. Haraldsson, Öldu: Vinnustundir á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, svolítið um Eflingarskýrsluna

Að loknum erindum um ýmsar hliðar styttingar vinnuvikunnar verða pallborðsumræður um málefnið.

Aðgangur að málþinginu er ókeypis og BSRB hvetur alla sem hafa áhuga á styttingu vinnuvikunnar til að mæta og fræðast. Til að hægt sé að áætla þann fjölda sem líklegt er að mæti væri afar gott ef þeir sem ætla að koma geti skráð sig til þátttöku á Facebook-viðburði sem stofnaður hefur verið fyrir málþingið, en það er ekki nauðsynlegt.

Málþing um styttingu vinnuvikunnar

FOSvest FOSvest | föstudagurinn 28. desember 2018

Gleðilegt nýtt ár

Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum  óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra áramóta og þakkar afar gott samstarf á árinu sem er að líða. Vinsamlegast athugið að skrifstofa félagsins verður lokuð á gamlársdag.

FOSvest FOSvest | mánudagurinn 3. desember 2018

Opnað fyrir umsóknir í Mosfell á Spáni

Ágæti félagsmaður.

Nú höfum við opnað við fyrir umsóknir um leigu á orlofshúsinu okkar, Mosfelli á Spáni, sem við höfum verið með aðgang að s.l. ár við góðar undirtektir. 
Húsið er á Torrevieja rétt hjá Alicante. Við bjóðum upp á tveggja vikna leigutímabil yfir sumartíma, en utan þeirra er hægt að panta sér eina viku í senn. 
Félagmenn eru beðnir að skoða það vel að skiptidagar eru þriðjudagar og á tímabilinu frá 30. apríl - 21. maí er hægt að panta eina eða tvær viku.
Síðan byrja sumartímabilin og eru þau sem hér segir: 21. maí - 4. júní, 4. - 18. júní, 18. júní - 2. júlí, 2. - 16. júlí, 16. - 30. júlí, 13. - 27. ágúst, 27. ágúst - 10. sept., 10. - 24. sept., 24. sept. - 8. okt. Eftir 8. okt. til með 3. des. er hægt að panta sér vikudvöl ef félagsmenn kæra sig um.
Flest flugfélög og ferðaskrifstofur eru með flug til Alicante á þriðjudögum og flest starfsmannafélög eru með skiptidag á þessum vikudegi. 
Til að fá nánari upplýsingar um húsið og umhverfið þess, fari á inn á slóðina; tilspanar.is og þar má finna er allt sem vita þarf um íbúðina.

Við höfum líka opnað fyrir umsóknir í öðrum bústöðum og íbúðum til 12. apríl 2019

Við höfum sent bréf í tölvupósti til allra sem við erum með netföng hjá en það eru því miður ekki allir. Því biðjum við þá sem ekki hafa fengið tölvupóst frá okkur en sjá þetta á heimasíðunni, að fara inn á orlofssvæði sitt og skrá þar netfangið sitt eða koma því til okkar með því að senda tölvupóst á gudbjorn@fjallaskolar.is og komast þannig í samband við okkur. Eins biðjum við þá sem eru með netfang hjá okkur að láta vinnufélaga sína vita af þessum pósti.

Með bestu kveðjum,

Guðbjörn Arngrímsson 
formaður orlofsnefndar Samflots

FOSvest FOSvest | miðvikudagurinn 14. nóvember 2018

Desemberuppbót /Persónuuppbót 2018

 

 

Bæjarstarfsmenn kr. 113,000,-

Ríkisstarfsmenn kr. 89.000,-

Starfsmenn Orkubús Vestfjarða kr. 153,493,-

FOSvest FOSvest | þriðjudagurinn 23. október 2018

Sonja Ýr Þorbergsdóttir nýr formaður BSRB

 

Birt á vef BSRB 19/10 2018

Sonja Ýr Þorbergsdóttir er nýr formaður BSRB, en kjöri til stjórnar bandalagsins er nýlokið á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica.


Meira
Eldri færslur
Vefumsjón