Algjör stöðnun í jafnréttismálunum

Algjör stöðnun í jafnréttismálunum

„Ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá …
„Ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Heildartekjur karla eru að jafnaði um 29 prósentum hærri en heildartekjur kvenna samkvæmt nýuppfærðri tekjusögu stjórnvalda. Við blasir algjör stöðnun í jafnréttismálum þar sem engin raunveruleg framþróun hefur orðið undanfarið segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í vitali við RÚV um þessa stöðu.

Meginástæðan fyrir þessum mikla tekjumun er að rangt var gefið í upphafi og ekki hefur tekist að leiðrétta það skakka verðmætamat sem liggur til grundvallar launum stórra kvennastétta.

„Störf þar sem konur eru í meirihluta voru áður unnin inni á heimilunum og færðust svo inn á vinnumarkað, til dæmis umönnunarstörf og störf á leikskólum. Og þá er bara rangt gefið í upphafi af því að samfélag þess tíma mat þessi störf ekki að verðleikum, og það er ennþá þannig. Því ef það er rangt gefið í upphafi og launaþróun í hverjum kjarasamningi er svipuð milli kynjanna, þá er skekkjan alltaf til staðar,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Fleira spilar inn í, til dæmis sú aukna ábyrgð sem konur axla á ólaunaðri vinnu inni á heimilunum og sú staðreynd að konur eru frekar í hlutastörfum en karlar. Þá hefur kynbundið náms- og starfsval einnig mikil áhrif, sem og völd almennt enda veljast konur síður til stjórnunarstarfa en karlar.

Mikill munur á heildarlaunum

Þessi kynbundni launamunur á tekjum er til staðar bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðinum. „Við sjáum rosalegan mun á heildarlaunum milli karla og kvenna. Það er oft minni munur á grunnlaunum en þegar maður horfir á yfirvinnu og önnur laun sem bætast ofan á grunnlaun, þá eykst bilið verulega,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Aðspurð hvað skýri þetta segir hún að stéttir þar sem konur séu í miklum meirihluta séu frekar á opinberum vinnumarkaði og þar starfi þær eftir taxta í kjarasamningi og hafi litla möguleika á launahækkunum. „Í störfum þar sem karlar eru í meirihluta er almennt meira tækifæri til að hækka launin. Það virðist vera meira svigrúm til að hífa karla upp í launum en konur,“ segir Sonja.

Í viðtalinu við RÚV fer Sonja einnig yfir hvað hægt er að gera til að snúa ofan af þessari óásættanlegu stöðu. Hún segir að fjölþættar aðgerðir þurfi til. Fyrsta skrefið sé að átta sig á misréttinu, skoða hvernig kvennastörf séu metin til launa og hvað vanti inn í. Viðurkenna þurfi að laun kvenna hafi verið röng alveg frá upphafi.

Vanmat á tilfinningaálagi

Þá sé augljóst vanmat á því tilfinningaálagi sem gjarnan fylgi umönnunarstörfum þar sem konur séu í meirihluta. „Það er algengt í störfum þar sem karlar eru í meirihluta að þeir fái aukagreiðslur fyrir atriði sem ógna öryggi þeirra, en það hefur ekki tíðkast jafnmikið í kvennastéttunum. Ef við tökum til dæmis þá sem starfa við löggæslu þá er viðbót í launum vegna öryggisógnar, en konur sem vinna til dæmis með fólki sem ræður ekki gerðum sínum, þær fá þetta ekki metið til launa með sama hætti,“ segir Sonja í viðtalinu við RÚV.

Hægt er að lesa viðtal RÚV við Sonju í heild sinni hér.

Félagsmannasjóðurinn Katla

Félagsmannasjóðurinn Katla

 

Búið er að opna fyrir umsóknir í Kötlu félagsmannasjóð sem er sjóður þeirra stéttarfélaga BSRB og félagsmanna þeirra sem aðild eiga að kjarasamningum við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Félagsmenn sækja um á rafrænni umsóknarsíðu sjóðsins og leggja fram viðeigandi upplýsingar svo sem síðasta launaseðil viðmiðunarárs, starfshlutfall og starfstíma yfir tímabilið 1. janúar til 31. desember 2020. 

Umsóknarfrestur er til og með 28. febrúar. Greitt verður úr sjóðnum í apríl, nánari upplýsingar á https://katla.bsrb.is/ 

Sækja um hér: https://minarsidurkatla.bsrb.is

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks í hnotskurn

Stytting vinnuviku vaktavinnufólks í hnotskurn

Tekið af vef BSRB, birt þar 2.febrúar.
 
Hægt er að lesa allt um styttingu vinnuvikunnar á betrivinnutimi.is.

 

Það getur verið flókið að kynna sér þær umfangsmiklu breytingar sem framundan eru hjá vaktavinnufólki þann 1. maí næstkomandi þegar vinnuvika þeirra styttist. Nú er hægt að sjá upplýsingar um breytinguna í hnotskurn á vefnum betrivinnutimi.is.

Þann 1. maí mun vinnuvika vaktavinnufólks styttast úr 40 stundum í 36, eða úr 173,33 klukkustundum í 156 að meðaltali í mánuði. Þá getur starfsfólk sem er á þyngstu vöktunum búist við enn meiri styttingu, allt niður í 32 stundir fyrir þau sem eru á þyngstu vöktunum.

Nú þegar vinnufyrirkomulagið verður endurskoðað verða einnig gerðar breytingar á því hvernig launin eru reiknuð út, launamyndunarkerfinu. Þar er þó skýrt markmið að enginn eigi að lækka í launum við breytingarnar og verður því fylgt eftir af fullum þunga af hálfu BSRB og aðildarfélaga bandalagsins.

Þessum breytingum fylgir einnig spennandi tækifæri fyrir vaktavinnufólk sem ekki er í fullu starfshlutfalli. Þeir sem hafa verið í hlutastarfi í vaktavinnu eiga rétt á að hækka hlutfallið á móti styttingunni og hækka þar með í launum.

Fyrir þá sem eru að koma nýir að samtalinu um styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu má benda á þessa samantekt á vefnum betrivinnutimi.is, þar sem hægt er að afla sér helstu upplýsinga.

betrivinnutimi.is

Stytting vaktavinnu - allt að 32 stunda vinnuvika

Stytting vaktavinnu - allt að 32 stunda vinnuvika

Eins og stefnt var að tók um áramótin við styttri vinnuvika hjá mörgum félagsmönnum F.O.S.Vest. Enn er þó eftir að ganga frá styttingu á nokkrum vinnustöðum. 

Sumstaðar hefur ferlið gengið vel eins og hjá Ísafjarðarbæ þar sem ákveðið var að fara í fulla styttingu. Einnig átti félagið ákaflega ánægjulegt samstarf við Orkubú Vestfjarða um styttingu vinnuvikunnar sem skilaði sér í styttingu í 36 stundir 1. janúar í mismunandi útfærslum eftir vinnustöðum.

Næsta verkefnið í vinnutímastyttingunni er stytting í vaktavinnu sem taka á gildi 1. maí. Styttingin í vaktavinnu getur orðið allt að 32 stunda vinnuvika og fer það eftir samsetningu vakta en aldrei minna en í 36 stundir.

Mikilvægt er fyrir vaktafólk að gera sér grein fyrir hvernig ferlið er og nota vaktareiknirinn á  betrivinnutími.is til að skoða hvaða áhrif styttingin hefur á þeirra vinnu. Hér er leiðbeiningarbæklingur þar sem farið er ýtarlega yfir ferlið. Einnig er tilvalið að kíkja á þetta frábæra video:

Við minnum á markmiðin með styttingu vinnuvikunnar sem skjalfest voru í nýjustu kjarasamningum bæði við ríkið og sveitarfélögin:

 • Stytta vinnuvikuna
 • Auka öryggi starfsfólks og skjólstæðinga
 • Gera vaktavinnu eftirsóknarverðari
 • Bæta samþættingu vinnu og einkalífs
 • Vinnutími og laun taki betur mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma
 • Bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks
 • Bæta starfsumhverfi
 • Auka stöðugleika í mönnun
 • Jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði
 • Draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
 • Auka hagkvæmni í nýtingu fjármuna
 • Bæta gæði opinberrar þjónustu


Eins og áður hvetjum við þá félagsmenn, sem standa í eldlínunni á sínum vinnustöðum við að innleiða vinnutímastyttinguna, að hafa samband við skrifstofu félagsins í tölvupósti, í síma 456-4407, á vefnum, á facebook eða með því að bóka viðtalstíma á skrifstofu. Við höfum tímabundið aukið við starfskrafta á skrifstofunni til að við getum aðstoðað ykkur eins vel og hægt er.

Vinnum saman og bætum lífsgæðin okkar með styttri vinnuviku!