Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

Kjarasamninga strax – Baráttufundur opinberra starfsmanna

Opinberir starfsmenn hafa fengið sig fullsadda af skeytingarleysi viðsemjenda nú þegar tíu mánuðir eru liðnir frá því kjarasamningar losnuðu. BSRB, Bandalag háskólamanna og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga boða til baráttufundar fyrir félagsmenn sína þar sem þess verður krafist að opinberir launagreiðendur gangi þegar í stað til kjarasamninga við starfsfólk sitt.

Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 30. janúar milli klukkan 17 og 18 í aðalsal Háskólabíós. Streymt verður frá fundinum beint á fundi aðildarfélaga BSRB, BHM og Fíh í Hofi á Akureyri og víðar um land.

Kjarasamningar þorra opinberra starfsmanna hafa verið lausir frá 1. apríl 2019 og hafa viðræður við ríki og sveitarfélög gengið afar hægt. Þolinmæði félagsmanna og samninganefnda er löngu þrotin og kominn tími á að efla samstöðuna og undirbúa aðgerðir.

Á baráttufundinum í Háskólabíói munu eftirtalin flytja stutt ávörp:

 • Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
 • Laufey Elísabet Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, fyrir hönd BHM.
 • Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
 • Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
 • Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis.

Milli ávarpa munu Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar og Reykjavíkurdætur taka nokkur lög.

Birtist fyrst á vef BSRB

Baráttufundinum verður streymt beint á skrifstofu F.O.S.Vest Aðalstræti 24 Ísafirði 30. janúar kl. 17.00. Sýnum samstöðu og fjölmennum!

Aðildarfélög boða atkvæðagreiðslu um verkföll

Aðildarfélög boða atkvæðagreiðslu um verkföll

Atkvæðagreiðsla þeirra aðildarfélaga BSRB sem semja við ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg um verkfallsboðun mun fara fram dagana 17. til 19. febrúar. Samþykki félagsmenn verkfallsboðunina munu víðtækar aðgerðir allt að 18 þúsund opinberra starfsmanna hefjast 9. mars og standa þar til samningar hafa náðst.

Fjölbreyttir hópar starfsmanna hins opinbera munu taka þátt í verkfallsaðgerðunum, verði þær samþykktar í atkvæðagreiðslu, til dæmis starfsfólk á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, í velferðarþjónustunni, skólum, leikskólum og frístundaheimilum. Einnig starfsmenn í sundlaugum og íþróttahúsum og starfsfólk sem sinnir þjónustu við aldraða og fólk með fötlun, svo einhver dæmi séu nefnd.

Boðaðar aðgerðir verða tvískiptar. Annars vegar verða verkföll hjá þorra félagsmanna hjá ríki, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg á ákveðnum dögum sem munu að óbreyttu lama stóran hluta almannaþjónustunnar þessa daga.

Hins vegar verða ákveðnir hópar í ótímabundnu verkfalli frá og með 9. mars. Það verða meðal annars starfsmenn grunnskóla og frístundaheimila á nær öllu höfuðborgarsvæðinu auk Akraness, sem þýðir að frístundaheimilin verða lokuð frá 9. mars.

Ótímabundið allsherjarverkfall frá 15. apríl

Samkvæmt þeirri áætlun sem félagsmenn munu nú greiða atkvæði um munu þessar aðgerðir halda áfram samkvæmt áætlun fram í dymbilviku. Ótímabundið allsherjarverkfall allra félagsmanna hjá ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg mun svo hefjast þann 15. apríl, takist samningar ekki fyrir þann tíma.

Alls munu félagar í 17 aðildarfélögum BSRB greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Niðurstöðurnar verða kynntar fimmtudaginn 20. febrúar. Félögin hafa verið kjarasamningslaus frá 1. apríl 2019, eða í á ellefta mánuð. Kjarasamningsviðræður munu halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða.

 • Félagsmenn í eftirtöldum félögum munu greiða atkvæði um verkfallsboðun:
 • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
 • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
 • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
 • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
 • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
 • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
 • Sjúkraliðafélag Íslands
 • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
 • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
 • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
 • Starfsmannafélag Garðabæjar
 • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
 • Starfsmannafélag Húsavíkur
 • Starfsmannafélag Kópavogs
 • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
 • Starfsmannafélag Suðurnesja
 • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Þrjú félög til viðbótar; Landssamband lögreglumanna, Tollvarðafélag Íslands og Félag starfsmanna stjórnarráðsins, hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær.

Nærri 90 prósent vilja aðgerðir

Mikill hugur er í félagsmönnum eins og sést í könnun sem Sameyki hefur látið gera hjá sínu fólki. Könnunin leiddi í ljós að nærri níu af hverjum tíu félagsmönnum styðja boðun verkfalls til að þrýsta á um gerð kjarasamninga.

Atkvæðagreiðslur verða á hendi aðildarfélaga BSRB sem munu birta sínum félagsmönnum nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu, fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir og greiðslur til þeirra sem fara í verkfall.

Aðildarfélög undirbúa atkvæðagreiðslu um verkföll

Aðildarfélög undirbúa atkvæðagreiðslu um verkföll

Fundur samningseininga BSRB samþykkti að hefja undirbúning verkfallsaðgerða.

Aðildarfélög BSRB sem semja við ríki, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg hafa samþykkt að undirbúa atkvæðagreiðslur um verkfallsboðun. Atkvæðagreiðslurnar fari fram hjá hverju félagi fyrir sig 17. til 19. febrúar og áformaðar aðgerðir hefjist í mars.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna fjölbreyttum störfum til að mynda á Landspítalanum og í annarri heilbrigðisþjónustu, í velferðarþjónustu, skólum, leikskólum og frístundaheimilum, í sundlaugum, íþróttahúsum og þjónustu við aldraðra og fólk með fötlun. Um 19 þúsund starfsmenn ríkis og sveitarfélaga starfa undir kjarasamningum aðildarfélaga BSRB.

Félögin hafa verið kjarasamningslaus í á ellefta mánuð en kjarasamningsviðræður munu halda áfram samhliða undirbúningi verkfallsaðgerða.

Eftirtalin félög samþykktu að hefja undirbúning verkfallsaðgerða nú þegar:

 • Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi
 • Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum
 • Félag starfsmanna stjórnarráðsins
 • FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu
 • Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
 • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
 • Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
 • Sjúkraliðafélag Íslands
 • Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu
 • Starfsmannafélag Fjallabyggðar
 • Starfsmannafélag Fjarðabyggðar
 • Starfsmannafélag Garðabæjar
 • Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
 • Starfsmannafélag Húsavíkur
 • Starfsmannafélag Kópavogs
 • Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
 • Starfsmannafélag Suðurnesja
 • Starfsmannafélag Vestmannaeyja

Landssamband lögreglumanna og Tollvarðafélag Íslands hafa lýst yfir stuðningi við aðgerðirnar, en félagsmenn þeirra hafa ekki verkfallsrétt og munu félögin því ekki boða til sambærilegra aðgerða. Þá styðja fangaverðir, sem eru í Sameyki en hafa ekki verkfallsrétt, aðgerðirnar þó þeir verði að standa utan við þær.

Atkvæðagreiðslur verða á hendi aðildarfélaga BSRB sem munu birta sínum félagsmönnum nánari upplýsingar um framkvæmd atkvæðagreiðslu og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir eins fljótt og auðið er.

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Tekið af vef BSRB.

 

Rannsóknir benda til að kynbundin og kynferðisleg áreitni þrífist á vinnustöðum. Hins vegar er óalgengt að einstaklingar leiti eftir aðstoð vegna slíkra mála. BSRB telur þörf á aukinni umræðu og útbreiðslu þekkingar á slíkri hegðun á vinnustöðum. Dæmi þar um er þátttaka í starfi um endurskoðun reglna varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni sem tók gildi 2015, útgáfa fræðslubæklings og fræðslufundir.

Allir eiga rétt á því að starfsumhverfi þeirra einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum. Í því felst að starfsmenn eiga rétt á því að njóta skilyrðislausrar verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað.

BSRB, ASÍ, BHM, KÍ, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa hafa gefið út netbækling þar sem farið er yfir ýmis atriði tengt kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Í bæklingnum er farið yfir skilgreiningu kynbundinnar áreitni, kynferðislegrar áreitni og ofbeldis. Þar má finna dæmi um þá hegðun sem fellur undir þessar skilgreiningar og skyldur atvinnurekenda vegna slíkrar hegðunar. Þá er einnig farið yfir úrræði fyrir einstaklinga sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri hegðun.

Afleiðingar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar. Slík hegðun getur haft afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt, eins og lesa má um í bæklingnum.

Einstaklingar geta meðal annars fundið fyrir verri heilsu, streitu, þunglyndi, niðurlægingu, pirringi og lent í tekjutapi. Á vinnustöðum geta starfsmannavelta og veikindi aukist og framleiðni dregist saman, auk þess sem áhrifin á orðspor vinnustaða geta verið mikil. Í samfélaginu ýtir hegðun af þessu tagi til dæmis undir misrétti, kynbundinn launamun og aukinn útgjöld af ýmsu tagi.

Meira